Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aldursvænt samfélag í Reykjanesbæ
Föstudagur 11. febrúar 2022 kl. 10:37

Aldursvænt samfélag í Reykjanesbæ

Ör fjölgun í hópi eldra fólks er áskorun fyrir alla, ekki bara Reykjanesbæ heldur allt landið. Í dag búa rúmlega 2.000 manns 65 ára og eldri í Reykjanesbæ og fer þessum hópi fjölgandi. Mikilvægt er að þjónustan hér sé góð og fjölbreytt og einnig virkni og þátttaka íbúa verði öflug í nærsamfélaginu. Forvarnir fyrir alla eru mjög mikilvægar og efla þarf lýðheilsu íbúa svo þeir geti búið í sjálfstæðri búsetu sem lengst. Við þurfum að vera tilbúin til að skoða nýjar og fjölbreyttar lausnir í þjónustu við eldra fólk en ekki festa okkur í gömlum vana. Finnum úrræði sem stuðlar að því að fólk geti búið heima sem lengst og styðjum fólk til að efla heilsu og viðhalda líkamlegu, andlegu, félagslegu heilbrigði. 

Heilsuefling og forvarnir

Reykjanesbær hefur boðið íbúum 65 ára og eldri upp á heilsueflandi verkefni frá Janus heilsueflingu frá árinu 2017 og mikilvægt er að halda áfram slíkum forvörnum fyrir þennan aldurshóp. Þjálfunin er miðuð að því að efla þol og styrk sem er lykilatriðið fyrir góða heilsu á efri árum. Reykjanesbær býður einnig upp á létta leikfimi, dans, Boccia, púttklúbb og ýmsar tómstundir fyrir þennan aldurshóp en mikilvægt er að hafa fjölbreytni í hreyfingu og heilsueflingu svo allir geti tekið þátt og koma í veg fyrir félagslega einangrun. Reykjaneshöllin er mikið notuð á morgnana og þar kemur fólk til að ganga sér til heilsubótar og eru allir velkomnir. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Uppbygging á Nesvöllum

Hrafnista rekur Nesvelli og Hlévang en gert er ráð fyrir 60 nýjum rýmum á Nesvöllum í lok árs 2024. Dagdvöl aldraða er á Nesvöllum og bjóða þau upp á tómstundaiðju, hreyfingu og hvíldaraðstöðu ásamt eftirliti með heilsufari. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og því þarf að bregðast við með heildstæðri stefnumótun og nýjum leiðum. Þjónustuframboðið þarf að taka mið af þessu, þjónustan verður að vera einstaklingsmiðuð og samfélagið þarf að styðja þennan hóp og sjá tækifærin sem felast því að virkja alla til þátttöku. Ég er tilbúin til að taka þátt í að móta fjölbreytta þjónustu sem snýr að þessum hópi til að efla heilsu þeirra og líf svo íbúar finni að í Reykjanesbæ sé gott að eldast. Ég bið um stuðning í 2.–3. sæti í komandi prófkjöri sjálfstæðismanna 26. febrúar.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
BA sálfræði og MBA.